- Snær
Fyrsta dýrið í athvarfinu
Snær var auglýstur á Facebook af fyrri eiganda sem treysti sér ekki til í að eiga hann lengur eða temja hann meira því Snær hafði ákveðið að fara sínar eigin leiðir og losa sig við knapa.
Sú hugmynd hafði komið upp að senda hann jafnvel í sláturhús ef enginn vildi kaupa hann svo úr varð að við í athvarfinu sóttum um að fá að eignast hann, það var samþykkt svo við drifum okkur norður í land með leigða hestakerru og sóttum hann.
Við komum honum fyrir í beitarhólfi á mýrunum ofan við Þykkvabæ þar sem hann kynntist merinni Klukku og merfolaldinu hennar. Þau mynduðu strax sterk fjölskyldutengsl.
Merfolaldið endaði svo á að enda í okkar eigu líka og fékk nafnið Líflukka.
Snær er yndislegur hestur ljúfur og góður í allri umgengni. Hann elskar að fá fóðurköggla sem nammi og kemur alltaf þegar kallað er í hann úti á túni. - Líflukka
Annað dýr athvarfsins
Líflukka
Líflukka er gullfalleg hryssa fædd 2019. Líflukka er undan merinni Klukku sem Snær tengdist sterkum böndum þegar hann flutti í hólfið til þeirra sama sumar og Líflukka fæddist. Líflukka varð til óvart þegar stóðhestur slapp í hólfið þar sem Klukka var svo það smellpassaði að hún og mamma hennar skyldu tengjast Snæ, því þá lá beinast við að við myndum skjóta yfir hana skjólshúsi og hún myndi fylgja Snæ út í lífið. Hún og Snær þurfa því aldrei að vera aðskilin.
Líflukka er fjörug hryssa og enn alveg ótamin. Hún á eftir að læra að umgangast fólk þar sem hún hefur verið í hagagöngu allt sitt líf. Hún er að koma á hús í fyrsta sinn núna í vetur (2020) svo það verður gaman að fylgjast með henni læra að fólkið hennar vill henni bara vel.
Copyright © 2019 - Proudly built with Strikingly